Svona er í pottinn búið - sýning í íþróttahúsinu

skrifað 15. jún 2016
IMG_7850

Blómasögusýning í tilefni af 70 ára afmæli Hveragerðisbæjar verður sett upp í íþróttahúsi bæjarins við Skólamörk á Blómum í bæ.

Smellið á fyrirsögnina og lesið fréttina !

Á blómasögusýningunni verður sögð saga pottaplantna og afskorinna blóma. Settar verða upp fimm stássstofur í íþróttahúsinu við Skólamörk sem sýna hvernig blóm hafa prýtt íslensk heimili í gegnum tíðina, allt frá 1900 og fram á okkar dag.

Merkum pottaplöntum í eigu Hvergerðinga, áratugagömlum ættargripum og græðlingum, verður gert hátt undir höfði.

Blómvendir frá landsfrægum og sögulegum viðburðum verða endurgerðir og sýndar verða myndir af hátíðarblómvöndum frá mismunandi tímum. Saga blómanna er saga Hvergerðinga og landsmanna allra.

Blómaböllunum í Hveragerði á árum áður verður gerð skil en árið 1955 var fyrsta blómadrottning bæjarins kosin.

Hefð er fyrir því að fermingarbörn séu með blóm í hári og jakkaboðungum og fjöldi Hvergerðinga á öllum aldri hefur lánað fermingarmyndina sína til sýningar.

Einstakt kaktusasafn Garðyrkjuskólans á Reykjum verður til sýnis.

Á sýningunni verður svo líflegur blómamarkaður þar sem gestum gefst tækifæri á að fræðast um og kaupa pottaplöntur og blómvendi.

Sýningarstjóri og hönnuður sýningarinnar er Auður I Ottesen, ritstjóri Sumarhússins og garðsins.

Blómasögusýningin verður sett formlega á Blóm í bæ, föstudaginn 24.júní kl.17:45 og verður opin til kl.19 þann daginn. Dagana 25. júní til 3. júlí verður sýningin opin frá kl.12-17 alla daga.

Verið velkomin.

Blómasýning2009 319IMG_2202IMG_6475