Fréttir
Við bjóðum gesti velkomna í bæinn, drögum fána að húni og fögnum stærsta viðburði á sviði umhverfismála, græna geirans og vistvænna farartækja.
Í tilefni af viðburðinum, Blóm í bæ, eru í Hveragerði 30 faglærðir blómaskreytar: Íslendingar, Hollendingar, Belgar, Norðmenn og nemar á blómaskreytingarbraut LBHÍ. Þeir vinna hörðum höndum að hönnun skreytinga úr íslenskum blómum sem prýða aðalgötu bæjarins og Lystigarðinn. Frá Fossflötinni upp Varmárgil taka Land Art skreytingar við. Þær eru unnar úr náttúruefnum sem eru í nærumhverfinu og eyðast þær í náttúrunni með tímanum. Njótum, skoðum og upplifum.
Opin sýningarsvæði alla helgina
- Land Art í Varmárgili – gengið frá Lystigarði upp Varmárgil.
- Blómaskreytingar og fallegur gróður í aðalgötu bæjarins og inni í Lystigarðinum Fossflöt
- Sýningarsvæði við Lystigarðinn: gróðurhús, hænsnakofi, blómaker, garðyrkjutæki o.fl.
- Gróðurhúsið Eden v/Þelamörk: Afurðir græna geirans til sölu, fjölbreytt sýning og sala á pottablómum, markaðir, sýning á páfagaukum frá Dýraríkinu o.fl.
- Sýning á vistvænum farartækjum – rafbílar, rafskutlur o.fl. v/Hótel Örk.
- Umhverfis- og bændamarkaður, Breiðumörk 21 – Markaðstorg með nýjum og ferskum afurðum beint frá býli, vistvænar vörur, flokkunarílát o.fl.
- Hveragarðurinn er opinn alla helgina. Húsdýrasýning við Drullusundið fyrir ofan Hverasvæðið.
Listamaður að störfum á hátíðinni:
Matthías Viðar Sigurðsson, myndhöggvari vinnur við gerð listaverks Elísabetar Jökulsdóttur, Þetta líður hjá, vestan við íþróttahúsið v/ Skólamörk.