Um sýninguna

Helgina 24. - 26. júní 2016 verður Garðyrkju- og blómasýningin „Blóm í bæ“ haldin í sjöunda sinn. Fyrri sýningar hafa notið mikillar hylli og fjöldi gesta sótt hátíðina heim og notið þess sem í boði var.

Sýningarsvæðið er í alfara leið fyrir ferðamenn, aðeins í um 30 mínútna fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.
Fjöldi viðburða verður á sviði garðyrkju, umhverfismála, skógræktar og íslenskrar framleiðslu. Fallegir garðar verða til sýnis, sögugöngur, markaðir, tónlistaratriði og margt, margt fleira.

IMG_7125 Þema sýningarinnar í ár er "Blóm í 70 ár" en Hveragerðisbær fagnar 70 ára afmæli í ár og munu 30 íslenskir og erlendir blómaskreytar taka þátt með fjölbreyttum hætti. Sett verður upp sýning í íþróttahúsinu sem sýnir tengsl gróðurs og hýbýla bæjarbúa í 70 ár.

Norrænafélag bæjarins heldur Jónsmessugleði í tengslum við hátíðina og verður sett upp miðsumarstöng í lystigarði bæjarins. Þar verður einnig boðið upp veitingar að hætti frændþjóða okkar á Norðurlöndunum.

Um 30 blómaskreytar frá 7 þjóðlöndum eru komnir til Hveragerðis og tekur stór hluti þess hóps þátt í verkefni sem heitir LandArt. Þar er unnið með náttúruleg efni og skreytingar búnar til sem síðan sameinast náttúrunni á ný með tíð og tíma.

Sýningin er fjölskyldumiðuð, fólk á öllum aldri ætti að finna eitthvað við sitt hæfi.

Í Hveragerði er gott tjaldsvæði sem verður opið alla dagana en einnig er minnt á að Strætó er með fjölda ferða um helgina til Hveragerðisbæjar frá Mjóddinni.

_MG_7422 _MG_7430